5C hafa verið miðpunktur í afreksstarfi Leicester City í um áratug. Alls bera fimm starfsmenn ábyrgð á innleiðingu 5C þvert á akademíuna, og starfa með leikmönnum, þjálfurum, starfsfólki og foreldrum. Markmiðið er að uppfylla kröfur ensku úrvalsdeildarinnar í að styðja við sálrænan þroska og vellíðan leikmanna í samræmi við heildræna sýn á hæfileikamótun.
5C veita okkur ramma og sameiginlegt tungumál utan um sálfræðileg hugtök, og tryggja að það sé samræmi í orðum og athöfnum þeirra sem taka þátt í að þróa unga leikmenn okkar.
Við notum margvíslegar aðferðir og nálganir til að efla sálræna færni og frammistöðu leikmanna í gegnum 5C.
Einstakir leikmenn sem og einstaka lið fá sálrænan stuðning og fræðslu, í gegnum regluleg námskeið og kynningar. Kjarninn í þessari vinnu okkar er að fræðslan sé í samræmi við aldur, með skýrum og sértækum áherslum sem tekur tillit til vitræns og félagslegs þroska.
Á yngsta stiginu er til dæmis lögð áhersla á að leikmenn sýni æskilega hegðun í samræmi við áherslur 5C. Á unglingastigi er lögð áhersla á að leikmenn skilji hvernig góð frammistaða lítur út, og er hún útskýrð í gegnum 5C. Þjálfarar, iðkendur og foreldrar taka öll þátt í að fræða, styðja og meta hvert annað útfrá þessari hugmyndafræði. Við styðjum einnig sjúkraþjálfara, næringafræðinga og annað starfsfólk í íþróttavísindum hjá félaginu í að þau taki þátt með okkur í að móta sálrænan þroska og frammistöðu leikmanna. Þjálfarar hanna æfingar sem taka tillit til sálrænna færniþátta um leið og þeir þjálfa aðra þætti knattspyrnunnar.
Vinna okkar með foreldrum byggir á svipuðum áherslum, þar sem þeim er boðið að taka þátt í vinnustofum og með reglulegri miðlun efnis til þeirra. Foreldrar eru hvattir til að halda 5C dagbók þar sem þau geta skrifað hjá sér hvernig barninu þeirra gengur út frá 5C tungumálinu.
Einfaldleiki 5C gerir okkur kleift að koma á framfæri tiltölulega flóknum hugtökum á auðskiljanlegan hátt. Við getum á auðveldan hátt aðlagað upplýsingar og umræður okkar að sameiginlegu tungumáli 5C. Við trúum því að vinnan sem við erum að leggja á okkur styður við sálrænan þroska og ungra knattspyrnumanna hjá Leicester City. 5C eru kjarninn í hverju einasta samtali sem ég og samstarfsmenn mínir eigum við leikmenn, þjálfara, starfsfólk og foreldra um sálrænan árangur og þroska.