fimm c

Félög

Börn og unglingar eiga að geta vænst þess að þau upplifi öryggi innan raða íþróttafélaga. Einnig að þau fái þar tækifæri til að þroskast og þróast sem manneskjur sem geta tekist á við margvíslegar áskoranir í lífinu. Ábyrgt íþróttauppeldi og markviss sálfræðileg færniþjálfun sem einblínir á velferð einstaklinga og hópa skiptir þannig miklu máli í starfi íþróttafélaga. Ítrekað er því haldið fram af þjálfurum, foreldrum, íþróttafólki og forráðafólki félaga að hugarfar og sálfræðilegi þátturinn skipti mestu máli. En hversu vel og markvisst er unnið í þessum þáttum? Með 5C aðferðafræðinni geta félög skilgreint hvaða eiginleikar það eru sem þau vilja að íþróttafólkið sitt temji sér, og hvernig þau vilja að unnið sé með þá. Þá er einnig mikilvægt að tjalda ekki til einnar nætur, því það tekur langan tíma að kenna sálfræðilega færni. Innan félaga þurfa einhverjir að fá hlutverk sem ber ábyrgð á því að foreldrar, íþróttafólk og þjálfarar séu meðvituð um það hvað félagið vill.
Play Video
fimm c

Markvissar leiðir til árangurs fyrir félög, þjálfara, íþróttafólk og foreldra

Í gegnum íþróttir er hægt að kenna ungu fólki mikilvæga lífsleikni sem getur gagnast því í leik og starfi. Í íþróttum læra börn að takast á við samkeppni, þróa með sér félags-og samskiptafærni, að vera partur af liðsheild, læra af mistökum, að kunna að takast á við töp og sigra, og að taka á móti endurgjöf frá öðrum. Þjálfarar, foreldrar og aðrir sem vinna með íþróttafólki spila stórt hlutverk í að skapa jákvætt og öruggt umhverfi sem gefur því færi á að þróa með sér þessa færni.

C-in fimm eru skuldbinding, samskipti, einbeiting, sjálfstjórn og sjálfstraust. Þau eru byggð á þekkingu og rannsóknum úr sálfræði og félagsfræði. Þeim er ætlað að hjálpa íþróttafólki, þjálfurum, foreldrum og öðrum til þess að takast á við margvíslegar áskoranir sem upp koma í íþróttunum. Þær eru ekki einungis líkamlegar og tæknilegar, heldur einnig hugarfarslegar, félagslegar og tilfinningalegar. Með auknum skilningi á þessum hugtökum á ungt fólk auðveldara með að þróa með sér hæfni og færni til að takast á við þessar áskoranir, og tekur þessa færni með sér inn í önnur svið lífsins utan íþróttanna.

Skuldbinding (Commitment)

Skuldbinding gefur til kynna gæði og magn innri áhugahvatarinnar sem drífur fólk áfram í því sem það tekur sér fyrir hendur. Hún er grunnurinn að því að ná árangri með því að reyna á sig, sýna áhuga, hafa sterkan vilja til að gera betur og seiglu til að takast á við áskoranir.

Til að hafa jákvæð áhrif á skuldbindingu íþróttafólks, þarf í fyrsta lagi að gefa því svigrúm til að stýra sínum eigin ferli og taka eigin ákvarðanir. Í öðru lagi þarf það að finna fyrir því að skuldbindingu fylgir bæting og að henni fylgir árangur. Í þriðja lagi þarf það að finna fyrir jákvæðum tengslum við aðra í íþróttinni, með því að hafa vini sína í kringum sig og að eiga góð samskipti við þjálfara sína.

Samskipti milli íþróttafólks og þjálfara, liðsfélaga eða foreldra geta tekið sér ýmis form. Til dæmis með því að tjá sig með orðum til að gefa upplýsingar, skilaboð, endurgjöf, hrós eða hvatningu. Einnig er hægt að gefa skilaboð í gegnum líkamstjáningu með handabendingum, viðbrögðum við mistökum og jákvæðu eða neikvæðu látbragði.
Samskipti í íþróttum geta verið lágstemmd og hástemmd, lágvær og hávær. Hafa skal þó í huga að þau eiga fyrst og fremst að vera hjálpleg eða gagnleg. Þannig notast 5C við hugtakið HELPA um þau sem eru góð í samskiptum því þau hjálpa (help), hvetja (encourage), hlusta (listen), hrósa (praise) og viðurkenna (acknowledge).

Einbeiting gegnir lykilhlutverki í að stýra frammistöðu íþróttafólks. Gæði einbeitingar felst yfirleitt helst í því hvert fólk beinir athygli sinni og hvort það geti haldið henni. Þannig getur það haldið athygli á því sem skiptir máli, þegar mestu skiptir.

Íþróttir innihalda mikið og mismunandi áreiti, oft á sama tíma. Íþróttafólk með góða einbeitingu nær oftar að forgangsraða því sem skiptir mestu máli og tekur þaðan að leiðandi oftar góðar ákvarðanir sem skipta máli fyrir frammistöðu. Þau sem eru einbeitt eiga þannig oftar jafna og góða frammistöðu en þau sem eiga erfiðara með einbeitingu

Sjálfsstjórn er nátengd einbeitingu. Báðar hafa áhrif á athygli fólks, hugsanir og tilfinningar. Íþróttafólk getur upplifað jákvæðar tilfinningar á borð við gleði, hamingju og æsing þegar það til dæmis skorar mark í knattspyrnu eða nær góðu stökki í frjálsum íþróttum. En á móti kemur að ef mótherjar skora eða stökkið er dæmt ógilt getur það fundið fyrir alls konar neikvæðum tilfinningum. Sjálfsstjórn snýst um að hjálpa íþróttafólki að fara ekki fram úr sér, eins mikið og hún snýst um að skilja, meðtaka og hafa stjórn á neikvæðum tilfinningum. Það er hægt að gera með líkamstjáningu, sjálfstali og öndun. 

Það hvernig íþróttafólk upplifir aðstæður hefur áhrif á sjálfstal og líkamstjáningu þeirra. Ef aðstæðurnar eru góðar, er líklegra að sjálfstalið er jákvætt, og öfugt ef þær eru neikvæðar. Túlkun íþróttafólks á aðstæðum er þess vegna lykilatriðið, og það þarf að skilja að þeirra er valið hvort það bregðist jákvætt eða neikvætt við þegar á móti blæs. 

Sjálfsstórn hefur einnig mikil áhrif á flókna tæknilega framkvæmd. Handknattleikskona í hraðaupphlaupi þarf að búa yfir flókinni tækni til að geta gripið boltann og komið honum í markið á fullum hraða. Stangastökkvari þarf að hitta stönginni í stokkinn á nægum hraða til að geta svo sveiflað sér yfir rána í mikilli hæð. Stjórn á athygli, tilfinningum og hugsunum við að tileinka sér slíka tækni skiptir miklu máli.

Sjálfstraust er síðasta C-ið því það þróast í gegnum hin C-in og er afleiðing af því að framkvæma þau vel. Sjálfstraust er hugarástand sem byggist á því hvort íþróttafólk trúi því hvort það geti framkvæmt það sem er ætlast til af því og náð þeim árangri sem það ætlar sér. 

Hægt er að byggja upp sjálfstraust í gegnum áreynslu, færni, afrek og stuðning. Fólk með sjálfstraust nálgast áskoranir á jákvæðan hátt, grípur tækifæri þegar þau gefast og takast á við erfið verkefni sem fólk með lítið sjálfstraust gæti veigrað sér við að gera. Fjórar meginstoðir afreks eru: nýleg afrek, krefjandi reynsla, hvatning og sjálfsstjórn.

Scroll to Top