Reynslusaga

Daði Rafnsson

Daði hefur notað 5C hjá Breiðablik, Háskólanum í Reykjavík, Orlando City, Washington Spirit og á Afrekssviði Menntaskólans í Kópavogi. „Ég hóf vegferð mína með 5C árið 2015 þegar ég var yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks og þjálfaði kvennalið Augnabliks.“
Þetta er mín saga

Daði Rafnsson

Ég hóf vegferð mína með 5C árið 2015 þegar ég var yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks og þjálfaði kvennalið Augnabliks. Liðið var samsett úr bestu leikmönnum 2. og 3. flokks og mér fannst við átta okkur ágætlega á því hvað við þyrftum að leggja upp með þeim taktískt, tæknilega og líkamlega. En mér fannst lítið til um sálfræðilega þáttinn, þrátt fyrir að nær allir þjálfarar og leikmenn sem maður fylgist með ræddu um að hann skipti mestu máli. Ég fann bókina og út frá henni skipulagði ég reglulega hugarfarsfundi með leikmönnum. Þar fórum við yfir hugtökin og hvernig þau skiptu okkur máli. Mér fannst leikmenn bregðast vel við og þá helst hvernig við ómeðvitað eignuðumst vísi að sameiginlegu tungumáli í kringum sálfræðileg hugtök.

Eftir að hafa komið heim frá störfum í Kína nokkrum árum seinna langaði mig að kanna betur í gegnum doktorsnám hvernig hægt væri að þjálfa upp sálfræðilega færni á markvissan hátt. Eftir að hafa skoðað mig vel og lengi um sótti ég námskeið hjá Chris Harwood og Karl Steptoe frá Loughborough háskólanum í Bretlandi. Þar fannst mér vera kominn ramminn utan um það sem mig langaði að prófa. Við höfum síðan verið að vinna í að gera starfslýsingar fyrir leikmenn sem notast við 5C til að útskýra hvaða atferli sé æskilegt í hverri stöðu. Einnig var ég um tíma hjá bandarísku atvinnumannafélagi þar sem ég mældi atferli leikmanna inni á velli eftir starfslýsingunum, og leiddi svo sálfræðilega færniþjálfun í gegnum inngrip hjá yngri liðum félagsins.

Árið 2019 fékk ég að leiða stofnun Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi. Þar eru 5Cin alltumlykjandi. Á fyrsta ári kynnast nemendur hugtökunum, á öðru ári notast þau við 5C spil sem við hönnuðum svo þau gætu leyst verkefni og hafið umræðu við fólk nærri sér um sálfræðilega færni. Á þriðja ári gera þau sjálfsmatsverkefni þar sem 5C koma við sögu.

Ég hef einnig verið að skoða ásamt atvinnumannafélagi hvernig er hægt að nota 5C í hæfleikaleit (scouting) og hæfileikamótun (talent development). Það sem ég kann best að meta við 5C er hversu auðskiljanleg og sveigjanleg þau eru eftir aðstæðum.

Scroll to Top